Hópur nemenda við Háskólann í Reykjavík tók að sér að undirbúa Froskaleik – Skólameistarann í útgáfu að nýrri þróun og uppfærslu sem lokaverkefni í tölvunarfræði vorið 2025. Grunn-undirbúningi er lokið og nú tekur Therapy Box í Bretlandi við að yfirfara þróun og tækni og vinna allar prófanir í samstarfi við Bryndísi Guðmundsdóttur, talmeinafræðing og leik- og grunnskóla Hjallastefnunnar, Markmiðið er að Froskaleikur – Skólameistarinn komi út haustið 2025 í opinni og ókeypis veflausn fyrir alla sem eru að læra íslensku og undirbúa læsi. Halla Sólveig Þorgeirsdóttir teiknari og grafískur hönnuður hjá Myndlýsingu ehf. hefur uppfært myndefnið og við erum spennt að leggja okkar af mörkum til að stuðla að læsi íslenskunnar. Börnin og dýrin í leiknum hjálpa Hoppa froski að ná málinu aftur eftir að galdrakarl leggur á hann álög. Á leiðinni að
galdrakastalanum þarf Hoppi að leysa ýmsar þrautir með íslensku málhljóðin, tengja bókstaf, málhljóð og orð í leikjum svo hann náí að brugga galdraseyðið og ná málinu aftur. Spennandi leikur en það er líka svo mikið ævintýri að læra að lesa og þar er Hoppi froskur svo sannarlega með allt á hreinu!
Á myndinni eru Kristín Bestla Þórsdóttir hjá Háskólanum í Reykjavík, Védís Hervör Árnadóttir rödd og höfundur þemalaga Lærum og leikum/Froskaleikurinn, með tölvunarfræðiteymi HR; Oliver Mána Hilmarssyni, Sigurði Matthíasi Bjarnasyni, Halldóri Smára Karlssyni og Raniu Roz Ali Wahba.