Um okkur

Bryndís Guðmundsdóttir hefur víðtæka reynslu og sérþekkingu í starfi sem kennari og talmeinafræðingur á Íslandi um árabil. Hún lauk mastersnámi í talmeinafræði með heyrnarfræði sem aukagrein í des. 1986 í Bandaríkjunum.  Bryndís lauk bandarísku réttindaprófi í talmeinafræði í des.1986 (National examination in Speech- Language Pathology) og hefur viðhaldið klínískum starfs-hæfniréttindum (Clinical Certificate of Competency) í Bandaríkjunum með árlegu námi og starfsþjálfun sem er mikilvægt til framþróunar og hæfni í öllu faglegu starfi talmeinafræðings, hvar sem er í heiminum

Á áratuga starfsferli með börnum og fullorðnum hefur Bryndís þróað aðferðir sem tengjast hennar sérsviði og gefið út efni í formi  bóka- spila og stuðningsefnis sem hún hefur aðlagað að þörfum barnafjölskyldna og erlendra einstaklinga sem vilja læra íslensku. Frá árinu 2013 hefur hún þróað 13 forrit sem kenna íslensku málhljóðin og undirbúa læsi, fyrstu íslensku öppin sinnar tegundar. Þróunin hefur verið í takti við framþróun í stafrænni tækni, sem hefur miðað að því að láta efnið lifna við í leikjaformi allt frá DVD yfir í iOs kerfi og veflausnir. Verkefni Bryndísar nú er að uppfæra efnið í nýjustu þróun máltækni íslenskunnar.

 Bryndís sækir reglubundið starfsþjálfun og námskeið erlendis sem leggja grunn að gagnrýndum aðferðum og nýsköpun í þjálfun, þróun námsefnis og tengdu efni. Hún hlaut barnabókarverðlaun Menntaráðs Reykjavíkurborgar 2008 fyrir bókina Einstök mamma. Bryndís var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1. jan. 2021 fyrir störf sín.