Home PageUmsagnir um námsefnið

Umsagnir um námsefnið

,,Mér fannst ég hálfpartinn vinna í lottó þegar þetta kennsluefni kom út. Áður þurfti ég að finna til blöð og hin og þessi verkefni fyrir hvern tíma en nú kippi ég bara öskjunni úr hillunni og finn til það sem hentar í hvert sinn. Þvílíkur tímasparnaður!…

Kennsluefnið ,,Lærum og leikum með hljóðin”  hefur reynst mér mjög vel í starfi mínu með leikskólabörnum. Kennsluefnið er mjög aðgengilegt og auðvelt að vinna með það eftir leiðbeiningum frá talmeinafræðingi.  Mín reynsla er sú að allt sem er sjónrænt skilar sér mun betur og það að hafa gott kennsluefni með áhugaverðum myndum skilar betri árangri. Kennsluefnið býður einnig upp á fjölbreytileika með spilunum sem fylgja eins og með S og R öskjunum. Það býður upp á að nota efnið alla kennslustundina með mismunandi verkefnum. Máni og Maja eru einnig skemmtilegar sögupersónur sem  höfða til barnanna.

Kennsluefnið hefur einnig nýst í starfi með elstu börnum leikskólans í stafa- og hljóðainnlögn og er frábært með þeim sem þurfa sérstaklega að vinna með ákveðna þætti hljóðkerfisvitundarinnar.

Efnið hefur efnið einnig nýst mér vel heima með ömmubarni mínu sem þarf að æfa sig í nokkrum hljóðum.

Það er skemmtilegt að vinna með lærum og leikum, bæði í vinnunni og heima. Þegar gleðin ræður ríkjum verður árangurinn meiri”

 Ólöf  K. Guðmundsdóttr leikskólasérkennari, (amma og meistaranemi).

,,Ég hef unnið með Lærum og leikum með hljóðin, S- framburðaröskjuna með nemanda sem er með alvarlega málhömlun. Efnið er frábærlega vel sett upp, stigþyngjandi og gefur mér tækifæri á að vinna með bæði hljóðvitund og orðaforða á fjölbreyttan og skemmtilegan hátt. Ég er sérstaklega ánægð með hvernig er hægt að vinna með hljóðmyndunina eftir stöðu í orði og samhljóðasamböndum.Ég er aðeins að byrja með R- öskjuna og þar er ég enn í þessum 6 æfingum sem gerðar eru til að undirbúa rétta staðsetningu R- hljóðsins. Ég finn að þær eru að skila árangri og mér finnst ég loksins vera að leggja grunn að lestrarnámi sem á eftir að skila árangri því auk hljóðtenginga eru beinar hljóðkerfisvitundaræfingar og minnisspil sem auka orðaforða og það er að mínu mati mjög þýðingarmikill þáttur í öllu námi.”

Guðbjörg Ingimundardóttir, sérkennari og deildarstjóri Eikarinnar í Holtaskóla, Rnb.

,,Sonur minn fékk „Lærum og leikum með hljóðin“ að gjöf þegar hann var u.þ.b. 18 mánaða gamall. Hann varð strax hrifinn af bókinni og myndunum og fór fljótt að bæta við sig orðaforða. Um tveggja ára aldurinn kviknaði grunur um dæmigerða einhverfu meðal annars vegna þess hve seinn hann var í málþroska.

Mér fannst gaman að nota myndirnar í bókinni til að æfa hann í að lesa í svipbrigði eins og leiður og glaður. Hann lærði mörg hugtök og sagnorð eins og „hnerra“ og „öskra“ og líkir alltaf eftir hljóðunum í lestinni, spætunni og fleira þess háttar. Honum finnst myndirnar greinilega skemmtilegar og áhugaverðar  sem mér finnst nauðsynlegt til að halda honum við efnið.

Fyrst notuðum við aðallega bókina til að efla málþroska, leika okkur með hljóðin og læra nokkra stafi í leiðinni en fljótlega eftir að í ljós kom að hann væri með einhverfu tók ég fram spjöldin og bjó til leiki í kringum þau. Við pörum saman myndir, förum í lottó og bætum við orðum.T.d. sýni ég honum auðveld spjöld með orðum sem ég veit að hann kann og bæti svo við örlítið erfiðari spjöldum inn á milli. Þannig gleymir hann sér í leiknum og lærir ný orð. Fyrst sagði hann bara „mála“ þegar hann sá spjald með manni að mála vegg. Nú spyr ég hann meira út í hvert spjald, t.d. „hver er að mála?“og „hvernig er veggurinn á litinn?“ og hann svarar þessum spurningum. Fyrir nokkrum mánuðum vorum við að koma orðunum inn en nú hefur honum farið mikið fram svo við erum að æfa setningar. Ég held að honum finnist þetta spennandi með spjöldin og þekkir myndirnar á spjöldunum úr bókinni.

Ég mæli með Lærum og leikum með hljóðin fyrir öll börn, hvort sem þau eiga í erfiðleikum með málþroska eða ekki . Þar er hægt að blanda saman kennslu með hljóð, orðaforða og stafina á skemmtilegan hátt. Á mínu heimili hefur þessi þjálfun orðið að skemmtilegum leik með því að bæta líka spjöldunum við.  Sonur minn mun fá R og S öskjurnar í jólagjöf og ég hlakka til að halda áfram að læra og leika með hljóðin og sjá syni mínum fara fram.”

Þórhildur Birgisdóttir, móðir og framkvæmdastjóri.

,,Sonur minn sem er heyrnarskertur hefur haft gagn og gaman að því að vinna með efnið „Lærum og leikum með hljóðin“. Áður en sonur minn hóf talþjálfun hjá Bryndísi Guðmundsdóttur talmeinafræðingi lenti ég oft og iðulega í því að þurfa að endursegja við fullorðna það sem hann var að segja. En mikil framför hefur orðið á framburði hans við notkun efnisins og er hann orðinn nokkuð skýrmæltur.  Þá er hann ávallt spenntur að fara í talþjálfun sem bendir til þess að hann hafi gaman af því þau eru að vinna með. Heimavinnan hefur líka gengið vel og er sonur minn oft að skoða bókina sem fylgir námsefninu. Þá hef ég einnig nýtt mér þetta námsefni við vinnu mína sem leikskólakennari og hefur reynst vel bæði til að efla hljóðkerfisvitund barna, framburð og orðaforða tvítyngdra barna.”

Erna Guðlaugsdóttir móðir heyrnarskerts drengs og leikskólakennari.

Ég hef notað Lærum og leikum í hljóðakennslu og þjálfun fyrir nýbúa því að hin myndræna útgáfa auðveldar mjög skýringar á munnstöðu og einnig á því hvert hljóðið er. Reiða gæsin hljómar nefnilega eins og öllum tungumálum. Mér hefur einnig reynst efnið notadrjúgt þegar hljóðmyndunarvandamál dúkka upp því æfingarnar sem boðið er upp á eru góð þjálfun og auðvelt að muna. Myndaspjöldin eru skemmtilegt spilabingó og nýtast við bæði hljóðþjálfun og greiningu.

Unnur G. Kristjánsdóttir, kennari í íslensku sem annað mál, Holtaskóla, Rnb.

,,Ég vil vekja athygli á framburðarbókum Bryndísar Guðmundsdóttur, sem hafa nýst mér einkar vel í starfi mínu sem sérkennari í leikskóla. Þær eru faglega unnar, glaðlegar og skemmtilegar og höfða mjög vel til allra barna sem ég hef unnið með í framburðarkennslu og þjálfun. Áherslan á hljóðið fremur en táknið og fjölbreytt verkefni sem tengja saman sjón, hljóð og tákn eru mjög örvandi og efla hljóðvitund barnanna, sem er einn mikilvægasti þátturinn þegar kemur að því að læra að lesa. Þessar bækur henta öllum börnum sem eru að byrja að læra málhljóðin og eru einnig frábær hjálpartæki fyrir þau sem lenda í erfiðleikum með hljóðmyndun og þurfa markvissa viðbótarþjálfun. Einnig fyrir börn með íslensku sem annað mál. Auk þess er til fyrirmyndar að nota fjölda orða sem eru börnunum framandi og auka þannig orðaforða þeirra í leiðinni.”

Svava Hafsteinsdóttir sérkennslustjóri leikskólans Kirkjugerði í Vestmannaeyjum.

,,Foreldrafélag Vesturbæjarskóla hefur gefið skólanum R og S framburðaröskjur við góðar undirtektir en félagið taldi þetta geta komið börnunum einkar vel að gagni í skólanum.”

Dagrún Árnadóttir, foreldri og gjaldkeri foreldrafélags Vesturbæjarskóla.

,,Búin að næla mér í R-bókina sem er algjör snilld og á stóran þátt í því stökki sem varð í réttum framburði á R hjá mínum dreng ! Mæli því heilshugar með þessum bókum 🙂 Höfundur á heiður skilið fyrir þetta framtak þar sem algjör vöntun hefur verið á markaðnum á kennsluefni sem foreldrar geta notast við heima í þjálfun á framburðarerfiðleikum barna sinna.”

Lúcinda Árnadóttir, móðir og sálfræðingur. 

,,Mæli með efninu hennar Bryndísar. Mjög skemmtilega unnar bækur og öskjur sem innihalda spil og leiki. Frábær viðbót í framburðarvinnu og ekki skemmir fyrir að börnunum finnst mjög gaman að fara í gegnum bókina og vinna verkefnin”

Anna María Gunnarsdóttir talmeinafræðingur