Algengar Spurningar
Hvernig eiga foreldrar að tala við börn sín þegar tvö tungumál eru á heimilinu?
Talið alltaf það tungumál við barnið sem ykkur er tamast. Í fjölskyldu þar sem tvö tungumál eru töluð ættu báðir foreldrar að lesa, tala og leika við barnið, hvort um sig á sínu máli. Hafið í huga að tvítyngt barn þarf öflugri málörvun á báðum tungumálum en þó sérstaklega því máli sem ekki er ríkjandi í samfélaginu.
Verið samkvæm sjálfum ykkur og talið ykkar móðurmál við barnið. Ef nauðsynlegt er að tala annað tungumál undir sérstökum kringumstæðum, haldið ykkur þá við ákveðna reglu.
Ferðist eins oft og kostur er til heimalands þess foreldris sem talar „veikara” málið. Ef mögulegt er leyfið barninu að dvelja þar í lengri eða skemmri tíma til að það öðlist færni í að tala. Það er mikilvægt að barnið kynnist ættingjum sínum og geti tjáð sig á máli þeirra. Ef barnið fer oft að heimsækja ættingja sína er jafnvel æskilegt að það fái að sækja leikskóla eða grunnskóla þó ekki sé nema í nokkra daga. Kostirnir eru margir, barnið kynnist eintyngdum börnum á sama aldri, það lærir að nota hið „veikara” mál í mismunandi aðstæðum, það kynnist menningu landsins og gerir því kleift að bera saman tvö skólakerfi sem eykur víðsýni þeirra og eflir sjálfstraust.
Gefið barninu færi á að hitta og tala við börn eða fullorðna sem einnig talar mál minnihlutans. Ef barnið hittir önnur börn sem svipað er ástatt fyrir er kjörið að koma á einhvers konar kennslu eða örvun innan hópsins sem stuðlar að betri málakunnáttu. Fyrir börn allt að þriggja til fjögurra ára er ekki úr vegi að foreldrar og börn hittist saman og örvi málið á þeim vettvangi.
Mikilvægt að velja málörvunar- eða kennsluefni sem hæfir hverjum aldri fyrir sig. Sem dæmi má nefna sögubækur, vinnuhefti, segulbands- og myndbandsspólur, tölvuleiki og hvað annað sem hentar barninu hverju sinni.
Reynið að sjá til þess að barnið læri að lesa og jafnvel skrifa á tungumáli minnihlutans. Það opnar margar dyr og eykur möguleikann á að málið lærist betur og að orðaforði eflist.
Hver eru helstu einkenni heyrnarskerðingar á tal og rödd?
Heyrnarleifar hafa áhrif á tjáningu sbr. eftirfarandi:
a) Tal – framburður
i. Myndun sérhljóða (a, e, i, o, fl.) með frávikum og/eða bjögun, stundum verða sérhljóð nefmælt
ii. Samhljóðar; samhljóðum er víxlað, oft er staðsetning talfæra rétt en rödduðu hljóði ruglað við óraddað hljóð. Oft er erfitt að mynda hljóðin sem þurfa meiri spennu talfæra við myndun t.d. fráblásturshljóðin
b) Rödd
a. eintóna og hol raddgæði
b. erfitt að stjórna styrk
c) Nefmæli (sérhlj
c) óðar)
d) Annað; jafnvægi – skynjun á umhverfi
Hvað er tákn með tali?
TMT eða tákn með tali er tjáningarform sem er ætlað heyrandi einstaklingum sem eiga við mál- og talörðugleika að stríða. Það er byggt á látbragði, svipbrigðum, táknum og tali. Táknunum er skipt í:
1) náttúruleg tákn sem byggjast á því að athöfn er leikin eða eiginleikum lýst
2) Eiginleg/samræmd tákn sem flest eru fengin að láni úr táknmáli heyrnarlausra. Í TMT eru táknin alltaf notuð samhliða töluðu máli og aðeins lykilorð hverrar setningar, eitt eða fleiri, táknuð. TMT er leið til tjáskipta jafnframt því sem hún örvar málvitund og málskilning barna. (Heimildir tmt.is) Góður vefur til að skoða og læra tákn með tali er tmt.is
Hvað er varalestur?
Svar.: Varalestur er það sem orðið gefur til kynna. Sá sem ekki heyrir horfir á varir þess sem talar og reynir að raða saman munnhreyfingum svo skiljist.
• Góður ,,vara-aflesari getur ekki lesið nema um 27 % + af vörum beint.
• Sami/svipaður myndunarstaður margra hljóða gerir það erfitt sbr. /m,b,p/, /t, d, n/,/k, g/,
• Til að aðgreina hljóð með sama/svipaðan myndunarstað þarf að nota skírskotun í tilfinningu fyrir hljóðinu og skoða aðra eiginleika þess sbr.
• M = afslappað hljóð, raddað
• B = aðeins meiri spenna í vörum, raddað
• P = stíft – spennt hljóð, óraddað, finna loft
Sá sem ætlar að lesa af vörum þarf því að lesa líka í líkamstjáningu og svipbrigði þess sem talar, auk þess sem gott er að undirbúa sig með því að vita um umræðuefnið fyrirfram.
Hvað eru grunnhugtök?
Grunnhugtök eru þau orð í tungumálinu sem gjarna útskýra betur eða leggja áherslu á ákveðna eiginleika sem orðin fela í sér. Þau koma gjarna í andstæðum. Grunnhugtökin eru m.a. = grunnlitir, stefna, magn, röðun, form, stærð, félags-tilfinningaorð, lýsandi orð, áferð, tími, staða í tíma og rúmi.
Dæmi um grunnhugtök í andstæðum:
• Inni/úti
• Stór/lítill
• Upp/niður
• Glaður/leiður
• Ofan á/ofan af
• Efst/neðst
• Opið/lokað
• Hátt/lágt
• Heitt/kalt
• Hratt/hægt
• Áður/eftir
• Hart/mjúkt
• Nýtt/gamalt
• Tómt/Fullt
• Fyrir aftan/fyrir framan
• Úti/inni
• Sofandi/vakandi
Hvernig á maður að kenna orðaforða?
Að kenna orðaforða er verkefni sem er alltaf í gangi. Hljóð og orð eru allt í kringum heyrandi einstaklinga. Orð og tákn í kringum þá sem ekki heyra. Nýtið hvert tækifæri til að nefna hluti í umhverfinu, setja orð í rétt samhengi, endurtaka þau og hafa í huga að barnið byrjar á því að þekkja orð og myndir/leikföng (málskilningur) áður en það fer að nefna orðið (máltjáning). Orðaforði er lykill að lesskilningi og undirstaða fyrir alla tjáningu. Barn sem hefur slakan orðaforða á leikskólaaldri getur átt erfitt með að ná tökum á lestri ef það skilur ekki það sem það les síðar vegna slaks orðaforða. Ég hef gjarna mælt með að orðaforði sé kenndur á skipulagðan hátt t.d. í ákveðnum orðaforðaþemum. Dæmi; Föt, dýr, farartæki, leikföng, hlutir á heimili, litirnir, grunnhugtök o.s.frv.
Hafið í huga að barnið læri að 1) þekkja orðin 2) geti lýst hlut eða einhverjum eiginleikum hans, 3) geti borið saman hluti, hvað er líkt/ólíkt 4) flokka hluti saman/yfirhugtök.
Hafið eftirfarandi leiðbeiningar í huga og um leið má skrá niður ef verið er að vinna skipulega:
Farðu vel yfir heiti orðanna með barninu
Gott er að útskýra orðin eins og við á
Ný orð í orðaforða skaltu merkja sérstaklega við og fara aftur yfir þar til barnið hefur náð heiti orðsins
Farðu yfir til hvers hluturinn er notaður
(Vigt til að vigta sig – mæla þyngd)
Leikið ykkur að búa til setningar með orðinu. Gefðu beygingum gaum og notaðu tækifærið til að gefa barninu góða fyrimynd með réttri fornafnanotkun, eintölu og fleirtölu nafnorða og með réttri beygingu tölu- og lýsingarorða í setningum. Dæmi: ef barnið segir: ,,Þarna eru margir krukka” – þá segir þú: já þarna eru þrjár krukkur; krukkurnar, þær eru þrjár. ,,Tvo stólir” > já þarna eru tveir stólar – þeir eru tveir – þessir stóru stólar við borðið.
Þegar búið er að fara yfir heiti orðanna má láta barnið leita og finna af handahófi orðið sem sagt er – hægt að setja yfir myndina jafnóðum.
Prófaðu að kasta upp teningi í leik og barnið velur jafnmörg orð til að segja á hverri bls.
Hvað er barkabólga? Er það annað en hnútar?
Barkabólga eða Laryngitis þýðir að raddböndin eru rauðleit í stað þess að vera hvít (eða ljósbleik) og gjarnan fylgir bjúgur eða bólga. Getur orsakast af sýkingu í öndunarfærum eða misbeitingu eins og að öskra mikið og lengi eða tala/syngja á óæskilegan hátt. Ef raddhvíld er ekki framfylgt að einhverju leyti geta raddbandahnútar fylgt í kjölfarið. Barkabólga og einkenni hennar geta orðið langvarandi ef ekkert er aðhafst.
Helstu raddeinkenni: Hæsi, dýpri rödd og mikil raddþreyta, jafnvel algert raddleysi.
Hvað eru hnútar á raddböndum?
Misbeiting raddarinnar getur leitt til aukins álags á fremri hluta raddbandanna þar sem bilið milli þeirra er minnst ( ath. raddböndin eru eins og öfugt V í laginu.) Í byrjun verður oft blæðing undir slímhúðinni, svo myndast siggkenndur vefur þar sem blæðingin varð og þá geta myndast hnútar sem eru oftast báðum megin. Litlir hnútar geta horfið við hvíld eða þegar dregið er úr ákveðinni raddhegðun. Eftir því sem hnútarnir verða siggkenndari verður erfiðara að losna við þá og mjög líklegt að þeir komi aftur ef þeir eru fjarlægðir. Hnútarnir hafa þær afleiðingar að glufa myndast milli raddbandanna þegar þau eiga að falla alveg saman. Auk þess verða raddböndin þyngri þ.a. röddin dýpkar og loft sleppur enn frekar á milli þeirra. Orsakir fyrir hnútamyndun er oftast of mikil raddnotkun, mikill og stöðugur raddstyrkur og óeðlileg tónhæð. Einnig hættir þeim sem ræskja sig mikið til þess að fá hnúta á raddböndin. Polypar; vökvafylltar blöðrur geta einnig komið á raddbönd og þá oftast bara á annað þeirra. Þeir koma oft eftir stutt tímabil þar sem röddin heftur verið ofnotuð.
Helstu raddeinkenni: Hæsi og röddin verður oft loftkennd einkum ef hnútarnir eru stórir.
Hvað er tunguþrýstingur?
Í gegnum tíðina hafa fagaðilar á sviði talmeinafræði og tannréttinga ekki verið á eitt sáttir um skilgreiningu á “tunguþrýstingi” og hvort að rétt væri að talmeinafræðingar sinntu þjálfun á þessu sviði.
Árið 1974 ályktaði sameiginleg nefnd bandarískra sérfræðinga í tannréttingum og talmeinafræði, ,,að það væru ófullnægjandi gögn sem styddu þá skoðun að hvers konar tunguhreyfingar sem skilgreindar væru sem tunguþrýstingur, mætti skoða sem ,,óeðlilegar, skaðvaldandi”,eða sem ákveðin heilkenni. Með tímanum hafa þessar skoðanir breyst og ýmsar rannsóknir staðfest að um ákveðin ,,heilkenni” væri að ræða. Með tímanum sýnir reynslan jafnframt að þar sem ekki er tekið á miklum tunguþrýstingi samhliða tannréttingum er árangur tannréttinga ekki eins góður til langframa. Mikill þrýstingur tungu á tennur getur haft þau áhrif að tennur færast til, halli á tönnum eða bil myndast. Flestir eru sammála um að eftirfarandi þættir tengist tunguþrýstingi:
Þegar tungan er í hvíldarstöðu, snerta fremsti hluti og hliðar tungunnar meira en helming efri eða neðri framtanna, augntanna og framjaxla, eða fara fram á milli framtannanna.
Í kyngingu á munnvatni, vökva eða fastri fæðu er sjáanleg aukning á tunguþrýstingi í átt að framtönnum. Þetta gerist yfirleitt strax í upphafi kyngingar.
Jafnframt óeðlilegum þrýstingi á framtennur getur lokun vara minnt á sog ungabarns þar sem tunga færist fram í kyngingu, en ekki aftur eins og gerist síðar hjá einstaklingum. Í mjög mörgum tilvikum fellur neðri kjálki oft niður með tilheyrandi opnun og tungubroddur snertir framtennur eða fer fram á milli þeirra.
Tunguþrýstingur sem hér er lýst, hefur áhrif á halla framtanna, opið bit, eða bil á milli fram- eða hliðartanna. En stundum leitar tunga út til hliðanna og getur haft áhrif á bilið þar.
Skv. alþjóðaskilgreiningum er algengast að halli og framstaða sé á framtönnum (Angles Class II, Divison I mal-occlusion) og/eða að opið bit í miðju, sé til staðar þegar tunguþrýstingur hefur áhrif á tannstöðu.
Þá getur þrýstingur tungunnar fram á við haft áhrif á framburð ákveðinna talhljóða. Þetta kemur helst fram í smámæli (S – hljóðin) eða í hljóðum sem þurfa ákveðinn þrýsting í munnholi þegar þau eru mynduð. Framburður á /l,t,d/ verður oft ”tannmæltari”, og /n/ er myndað með meiri þrýstingi á framtennur.
Einstaklingar með tungþrýsting eru oft opinmynntir sem þýðir að vöðvar í vörum hjálpa ekki til við að halda tönnum kyrrum á sínum stað þegar tunguþrýstingur verður þess valdandi að tennur færast fram.
Tunguþrýstingur getur verið frá því að vera mjög vægur upp í að vera mjög mikill. Mikill tunguþrýstingur fylgir oft ákveðnum heilkennum þar sem góm– kjálkagallar eru miklir og einstaklingarnir eru með mjög stóra tungu og mikinn þrýsting fram.
Hvaða munur er á stami og hökti?
Oft er erfitt að greina mun á þessu. Það er m.a. vegna þess að stam kemur í tímabilum, kemur og fer og er mismikið. Hökt er ekki eins áberandi og er oft talinn eðlilegur hluti af máltökunni. Það fer ekki yfir þau mörk að draga að sér óeðlilega athygli og hættir oft þegar börn ná betri tökum á málþroskanum. Hökt er þó yfirleitt viðvarandi í lengri frásögnum. Það einkennst meira en stamið af hiki, barnið umorðar setningar, endurtekningar eru meiri á lengri orðum eða heilum setningarhlutum. Þá eru stundum svokölluð ,,hækjuorð” til staðar sbr. uh sko, hérna, ég meinti sko…. Os.frv.
Stam hljómar óeðlilega og oft er meiri spenna í talinu. Það er ekki eðlilegur hluti af máltökunni og er í raun mjög breytilegt. Endurtekningar á hljóðum, atkvæðum og litlum orðum (eitt atkvæði) eru oft til staðar. Þá er hljóðum stundum haldið lengi (lengingar), eða talfæri jafnvel virðast festast við að mynda ákveðin hljóði (festingar). Þegar barn er að þróa með sér stam er gott að skrá niður einkenni og tímabil og fara með þær upplýsingar til sérfróðra talmeinafræðinga á þessu sviði. Það hjálpar í greiningarferlinu. Ekki skal bíða of lengi með aðstoð.
Hvað er skroll?
Orðið ,,skroll” er gjarna notað þegar tungubakið sveiflast óeðlilega mikið aftast í munnholi með titringshljóði aftur í koki. Í raun er viðkomandi að nota tungubakið til að mynda R – hljóðið í stað þess að lyfta tungubroddinum til að mynda hljóðið, eins og við gerum venjulega þegar við segjum íslenska R– hljóðið. Það er mikilvægt að hvetja ekki börn á unga aldri til að mynda of mikla sveiflu á R– hljóðinu t.d. með orðalaginu: Segðu RRRRR… eða Þú átt að segja svona RRRRR > allt með fyrirmynd að löngu hörðu R– hljóði. Börn hafa oft stóra hálskirtla og stutt er í vefi aftast í kokinu sem þýðir að börnin finna oft og heyra strax titringshljóð á röngum stað. Gott er að leita til talmeinafræðings og fá ráðgjöf og inngrip ef þörf krefur, strax og barn fer að ,,skrolla” eða mynda of baklægt R. Ekki er mælt með því bíða eftir því að þetta lagist af sjálfu sér ef barn er að þróa R hljóðmyndun á röngum myndunarstað með sveiflu aftur í koki. Öðru máli gildir ef barn segir t.d. ð/r (ðúm > rúm) eða l/r (lúm >rúm) þá má bíða fram undir 5 ára aldur að vinna með það, ef barnið hefur ekki mörg önnur frávik í framburðinum.
Hvenær læra íslensk börn öll talhljóðin?
Rannsóknir sýna að 2,4 ára (tveggja ára og fjögurra mánaða) börn mynda u.þ.b. 60% málhljóða rétt. Börn sem eru 3,4 ára mynda u.þ.b. 85-90% málhljóða rétt (helst eru erfiðleikar með /hn/ (hnífur, hneppa), /þ/(þak), /γ/(auga, sög), /s/(sími), /r/(rani >>>> rúmlega 80% með rétta myndun á /r/)
Börn sem eru 4 ára mynda u.þ.b. 95% málhljóða rétt og eru helstu erfiðleikar með /hn/, /þ/, /γ/, /s/, (um 90% með rétta myndun á /r/) Sjá að ofan.
Hvenær eiga foreldrar að skilja hvað börn þeirra eru að segja?
Flestir foreldrar skilja tal barns síns í um 25 % tilvika við 18 mánaða aldur og þegar barnið er orðið tveggja ára skilja þeir um 50 – 75% af því sem barnið segir. Við þriggja ára aldur skiljast börn í 75 -100 % tilvika þó að þau hafi ekki náð öllum hljóðum. Ókunnugir sem þekkja ekki barnið í daglegri umgengi skilja sama barn mun verr eða kannski um 50 % tveggja ára barna eru skilin af ókunnugum, 75 % þriggja ára barna skiljast af ókunnugum á meðan að flest börn ættu að skiljast við 4 ára aldur. Sama gildir að þau hafa kannski ekki náð öllum hljóðum en skiljast vel.
Hvað er tunguhaft og hvaða áhrif hefur það á talið?
Tunguhaft er vefur eða nokkurs konar felling sem tengir tunguna við munnbotninn. Þegar tungunni er lyft sést þessi vefur. Þegar þessi vefur er stuttur og strekktur með þeim afleiðingum að hann togar mikið í tungubroddinn á viðkomandi erfitt með að lyfta tungunni upp og hreyfa hana vel til hliðanna. Talið er að í um 2 % tilvika sé tunguhaft til staðar. Tunguhaft getur verið vel sýnilegt án þess að það hafi áhrif á framburð og tal. Þegar tungubroddur lyftist ekki vel upp í efri góm og snertir hann þá getur það haft áhrif á framburð R – hljóðsins. Í alvarlegum tilvikum getur það haft áhrif þegar viðkomandi matast. Vægt tunguhaft hefur í fæstum tilvikum áhrif á tal en stundum er gott að talmeinafræðingur meti stöðuna m.t.t. framburðar í orðum og frásögnum þar sem tunga er stöðugt að færa sig og breyta stöðu í munnholi m.t.t. mismunandi hljóða.