Product Description
- Námskeið í notkun Íslenska málhljóðamælisins verður haldið Á INTERNETINU mánudaginn 16. sept. 2024 frá kl. 9.00 – 15:30.
ÞÁTTTAKENDUR FÁ SENDAN AÐGANG Í TÖLVUPÓSTI OG GETA ÞVÍ SÓTT NÁMSKEIÐIÐ HVAR SEM ER.
Íslenski málhljóðamælirinn er byltingarkennd og nýstárleg lausn í skimunartækni í spjaldtölvu (iPad) sem ætlað er fagaðilum leik- og grunnskóla og stofnana.
Með forritinu er unnt að skima og forprófa framburð íslensku málhljóðanna og meta skiljanleika tals. Í lengri hluta greinir forritið sjálfkrafa helstu hljóðkerfisþætti í framburði sem farið verður vel í á námskeiðinu fyrir alla fagaðila. Mælirinn leiðir fagaðila og barn/próftaka áfram á einfaldan og skilvirkan hátt í gegnum skimunina um leið og forritið aflar gagna sem skráð eru í niðurstöðum.
Nánari upplýsingar hjá Bryndísi Guðmundsdóttur í gegnum netfangið laerumogleikum@gmail.com
Fyrir hverja er Íslenski málhljóðamælirinn?
Íslenski málhljóðamælirinn hentar vel til að forprófa öll börn á leik- grunnskólaaldri til að meta hvar barnið stendur í framburði íslensku málhljóðanna og hvernig unnt er að koma sem best til móts við þarfir þess. Þá er kjörið að skima með Íslenska málhljóðamælinum til að meta strax hvaða börnum þarf að gefa sérstakan gaum og vísa strax til talmeinafræðings.
Skimunartækið hentar jafnframt sérstaklega vel til að skima nemendur af erlendum uppruna og undirbúa þau fyrir íslenskunámið með ábendingum um framburð íslensku málhljóðanna.
Þá geta talmeinafræðingar metið framburð einstaklinga sem hafa orðið fyrir áföllum er hafa áhrif á tjáningu og framburð m.a. vegna taugafræðilegs skaða.
Með Íslenska málhljóðamælinum fá börn vísi að greiningu á málhljóðamyndun sinni. Á fljótlegan hátt geta fagaðilar skóla og talmeinafræðingar skimað allt að 6 börn á klst. Í lok skimunar er samantekt sjálfkrafa tilbúin með upplýsingum um stöðu barnsins. Það má bæta við upplýsingum í samantektina/skýrsluna, vista hana, senda og/eða prenta út. Í skimunarforritið eru innbyggð aldursviðmið og strax kemur í ljós hvort framburður barnsins samsvarar getu jafnaldra í framburði. Bent er á hvaða málhljóð þarf að þjálfa m.a. til að laða fram réttan framburð og hljóðavitund sem mikilvæg er í umskráningarferli fyrir læsi. Þá er ekki síst mikilvægt að vita hvort þörf er á að vísa barni beint til talmeinafræðings svo ekki komi til óþarfa bið, enda biðlistar eftir talþjálfun langir.
Tækið er sveigjanlegt eftir sérfræðiþekkingu notanda þ.e. hvort um er að ræða talmeinafræðinga, sérkennara, kennara, þroskaþjálfa eða aðra fagaðila. Val er um styttri skimun miðað við aldur auk þess sem hægt er að senda/prenta/vista styttri samantekt. Skimun kemur ekki í stað prófunar talmeinafræðings.
Við gerð Íslenska málhljóðamælisins er stuðst við erlendar fyrirmyndir að skimunartækjum í spjaldtölvum og samráði við útgefendur þeirra skimunarprófa.
——————————————————————————–
Fyrirkomulag og forkröfur:
Fagðailar skóla og stofnana; kennarar, sérkennarar, þroskaþjálfar, talmeinafræðingar, sálfræðingar og fl. hafa lokið grunnnámi í tölfræði og íslensku bæði í framhaldsskóla og háskóla þ.m.t. talið hljóðfræði og hljóðkerfisfræði. Vegna mikilvægis þessara þátta er þó farið vel yfir þessa þætti í upprifjun og fræðslu svo prófandi geti m.a. túlkað niðurstöður þrátt fyrir að forritið sjái um alla greiningu hljóða og hljóðkerfisflokkun. Þá verða helstu framburðarfrávik kynnt og útskýrð með dæmum og myndböndum. Erlendar og íslenskar rannsóknir um hljóðatileinkun og framburðarfrávik verða kynntar og nákvæmlega farið í skráningu og tilhögun skimunar með Íslenska málhljóðamælinum. Skimunartækið er uppbyggt þannig að á hverju stigi er prófanda leiðbeint um næstu skref og því er fræðslan góður stuðningur við prófafyrirkomulagið sjálft innan í skimunartækinu. Ítarleg þjálfun fer fram á námskeiðsdegi í notkun mælitækisins með fjölda raunverulegra prófana í gegnum myndbönd sem verða skoðuð sameiginlega. Mælst er til þess að þátttakendur hafi iPad með forritinu niðurhlöðnu á námskeiðinu en farið verður í forritið skref fyrir skref með góðum leiðbeiningum og handleiðslu. Snjalltæki iPad þarf að nota í þjálfun á vinnustað í framhaldi þar til gagnaskilum er lokið með fullnaðarskírteini. iPad tækin þurfa að geta nýtt iOs 10 og iOs 11 og allar nýrri útgáfur til að nýta alla virkni forritsins á sem bestan hátt. Tæknileg aðstoð verður veitt eftir fremsta megni með aðgengi að forriturum Raddlistar á þjálfunartíma.
∗ Forritið Íslenski málhljóðamælirinn er í boði í AppStore fyrir þátttakendur og skóla og stofnanir viðkomandi þátttakenda. Aðeins 12 –17.000 kr. hvert próf með leyfi í 5 tæki með sama auðkenni Apple (fer eftir gengi $). Aðeins 2800 -3600 kr. pr tæki. Raddlist ehf./Bryndís getur liðsinnt við kaup ef þörf krefur og/eða tímabundinn aðgang. Allir þátttakendur fylgjast nákvæmlega með hvernig á að nota forritið á deildum skjá á námskeiðinu. Athugið að kaup fara eingöngu fram EINU SINNI eins og þegar önnur skimunartæki eru keypt í prentaðri útgáfu. Það er ekkert árgjald og ótakmörkuð not fylgja hverju keyptu appi. Appið er sem sagt keypt einu sinni og gildir fyrir allar síðari tíma uppfærslur.
Æskilegt er að þátttakendur hafi reynslu í að nota spjaldtölvu (iPad) og reynslu í prófafyrirlögn/skráningum á einhverjum þeim skimunarprófum sem notuð er í leikskóla og/eða grunnskóla.∗∗ Sjá dæmi að neðan. Það er þó ekki skilyrði enda verður farið ítarlega í alla skimunarfyrirlögn í tæknilausn iPad á námskeiðsdegi.
——————————————————————————–
Að loknum námskeiðsdegi fara þátttakendur svo á vinnustað/starfsstöð og prófa forritið með því að gera raunverulegar skimanir á fjölda nemenda með ákveðnum fyrirmælum frá leiðbeinanda. Niðurstöður þarf að senda beint innan úr forritinu til leiðbeinanda sem fer yfir þær og gefur endurgjöf til þátttakanda. Að því loknu er réttindaskírteini sent til þátttakanda. Bryndís fylgir öllum skimunarniðustöðum eftir með ítarlegri endurgjöf á allar skimanir. Undirrituð leyfi foreldra verða að liggja fyrir og þátttakendur verða að fylgja vinnslusamningum og persónuverndarskilyrðum síns skólasamfélags.
——————————————————————————-
Hvar og hvenær?
Fjarnámskeiðið verður haldið í Á INTERNETINU – ÞÁTTTAKENDUR FÁ SENDAN AÐGANG Í TÖLVUPÓSTI OG GETA ÞVÍ SÓTT NÁMSKEIÐIÐ HVAR SEM ER.
Mánudagur 16. sept. 2024 kl. 9.00 – 15.30 Námskeiðsdagur.
Okt. – nóv 2024. Skimanir á starfsstöð: ALLS 8 – 10 klst.
Des. 2024. Skil á skimunargögnum (eða eftir samkomulagi)
Sept – des. 2024. Eftirfylgni leiðbeinanda – endurgjöf á úrvinnslu gagna og stöðumat (Persónuleg netsamskipti). Þátttakendur mega búast við frekari ráðgjöf, aðstoð og eftirfylgni í allt að 6 mánuði eftir lok námskeiðs (innifalið í þátttökugjaldi).
NÁMSKEIÐ OG ÞJÁLFUN TEKUR A.M.K. 20 KLST. auk frekari ráðgjafar leiðbeinanda/talmeinafræðings.
Prófskírteini afhent/sent frá des.2024 – mars 2025 eða skv. SAMKOMULAGI að lokinni endurgjöf og stöðumati.
Verð aðeins 58.700 kr. Greiða þarf þátttökugjald við skráningu með millifærslu hér á síðunni þegar námskeiðið er sett í körfu við pöntun. Þá er hægt að óska eftir að reikningur verði sendur beint til skóla (sjá að neðan). Vinsamlegast setjið nafn viðkomandi í skýringu þegar millifært er og sendið staðfestingu á laerumogleikum@gmail.com. Gætið þess að skrá EKKI sendingargjald með. Skrá það sem útlönd.
Í þeim tilvikum sem skóli/stofnun greiðir fyrir námskeiðið þarf að senda nafn þátttakenda, kennitölu, starfsstöð og upplýsingar um nafn, kt. greiðanda og heimilisfang á netfangið laerumogleikum@gmail.com. Auk þess þarf að skrá sig í gegnum heimasíðuna en velja bankamillifærslu og skrifa skýringu með um greiðanda.
Námskeiðsgjald er ekki endurgreitt nema í tilviki veikinda þar sem lagt er fram læknisvottorð. Þar sem pláss eru tekin frá vegna takmarkaðs þátttakendafjölda er öðrum vísað frá sem ella hefðu sótt námskeiðið. Allur kostnaður er engu að síður greiddur af Raddlist ehf. m.a. forritunarkostnaður, þó að þátttakandi mæti ekki. Tilkynna skal um forföll án veikinda með a.m.k. 3 daga fyrirvara svo unnt verði að bjóða öðrum þátttöku. Forfalla- og umsýslugjald 5000 kr. er tekið af endurgreiðslu. Sem fyrr segir þarf að framvísa veikindavottorði í tilviki veikinda þátttakanda.
—————————————————————————-
Nánar:
Leiðbeinandi námskeiðsins er Bryndís Guðmundsdóttir, kennari B.Ed. með íslensku sem aðalfag og M.A. CCC-SLP í talmeinafræði. Bryndís hefur áratuga starfsreynslu sem talmeinafræðingur á Íslandi.
Námskeiðið er ætlað fagaðilum skóla og stofnana sem hafa grunnþekkingu á tölfræði og hljóðfræði úr framhaldsskóla/háskólanámi sínu.
Á námskeiðinu verður lögð áhersla á fræðslu um hljóðfræði, hljóðkerfisfræði og framburð íslensku málhljóðanna sem nauðsynlegt er að hafa á valdi sínu til að geta lagt skimunarprófið fyrir og túlkað niðurstöður. Þá verða helstu framburðarfrávik kynnt og útskýrð með dæmum á myndböndum. Rannsóknir um hljóðatileinkun og framburðarfrávik verða kynntar og nákvæmlega farið í prófatilhögun.
Skimunartækið er uppbyggt þannig að á hverju stigi er prófanda leiðbeint um næstu skref og því er fræðslan góður stuðningur við prófafyrirkomulagið sjálft innan í skimunartækinu.
Íslenski málhljóðamælirinn byggir á íslenskum og erlendum rannsóknum um hljóðatileinkun og framburðarfrávik auk rannsókna á tengslum hljóð- og málvitundar við lestrarfærni og rannsókna á börnum í áhættu fyrir lestrarörðugleikum.
Við gerð Íslenska málhljóðamælisins er stuðst við erlendar fyrirmyndir að skimunartækjum í spjaldtölvum og samráði við útgefendur þeirra skimunarprófa.
Fjöldi íslenskra fagaðila hefur komið að prófunum til að gera skimunartækið sem best úr garði íslenskum notendum til hagsbóta.
——————————————————————————–
∗∗ Dæmi um skimunarpróf sem æskilegt er að hafa reynslu af að leggja fyrir eru t.d. Hljóm2, EFI-2, Orðaskil, Smábarnalistinn, Íslenski þroskalistinn, Told-2P, TOLD-2I, Hljóðfærni, TRAS skráningarkerfið, Brigance þroskaskimunarprófið, AEPS færnimiðaða matskerfið, Kuno Beller athugunarlistinn, AAL athugun á atferli leikskólabarna, Snemmtæk íhlutun 2-3 ára barna/skráningarlistar og fl. Það er þó ekki skilyrði enda vel farið í alla skimunarfyrirlögn í tæknilausn iPad á námskeiðsdegi.
Greiningarforritið, Íslenski málhljóðamælirinn, hefur farið í gegnum nákvæma skoðun og áhættugreiningu með tilliti til Persónuverndar og m.a. var stuðst við viðmið Sambands íslenskra sveitarfélaga um forrit í menntun. Fyrstu 30 mánuði eftir útgáfu Íslenska málhljóðamælisins var ópersónugreinanlegum gögnum safnað úr forritinu til að meta notkunina, orðaval, tímalengd og áreiðanleika forritsins. Gögnin gáfu talsverða vísbendingu um mælitækið og hvað mátti betur fara í fræðslu til þeirra sem nota það. Um var að ræða n.k. gæðaeftirlit með áherslu á að bæta skimunartækið enn frekar. Engum persónugreinanlegum gögnum er safnað í forritinu.
Allar uppfærslur og viðbætur eru notendum að kostnaðarlausu.